Hvað er esperanto?

Esperanto er tungumál sem búið var til af pólska augnlækninum L.L. Zamenhof (1859-1917) árið 1887, til þess að leysa tungumálavanda heimsbyggðarinnar. Málið er eitt margra sem búin hafa verið til í því skyni að verða hlutlaust alheimssamskiptamál, þ.e. mál sem allir kunna, en enginn hefur að móðurmáli. 

Er ekki nóg til af tungumálum? 

Esperantistar telja hvorki árennilegt né eftirsóknarvert að gera þjóðtungu að alheimssamskiptamáli. Þar kemur einkum tvennt til. 

 • Í fyrsta lagi er ekki fyrirsjáanleg samstaða um eitt tungumál fremur en annað, og í öðru lagi er seinlegt að læra mál framandi þjóða að gagni, sérstaklega ef tungumálið er mjög óskylt manns eigin móðurmáli.
 • Mikill og augljós aðstöðumunur er í samskiptum sem eiga sér stað á tungumáli sem er móðurmál annars aðilans en fyrir hinum tungumál sem hann hefur lagt mikla vinnu í en öðlast litla færni. Um þetta er fjallað nánar í Prag-ávarpi esperantohreyfingarinnar frá 1996.

Hvers vegna esperanto? 

Esperanto hefur sérlega margt umfram önnur mál af þessu tagi, og ber þar hæst hversu fljótlært það er, og þó "skilvirkt". Það er einkum tvennt sem gerir esperanto auðlært: 

 • málfræðin er einföld og algerlega án undantekninga.
 • orðstofnar eru afar fáir. Orð með tengda merkingu eru mynduð með forskeytum og viðskeytum; orðin eru smíðuð eins og í föndursetti. 

  Dæmi: af orðstofninum 'kudr-' sem táknar saumaskap (kudri þýðir "að sauma") má mynda orðið eks-kudr-ist-in-o, sem þýðir "fyrrverandi saumakona". Forskeytin og viðskeytin sem notuð eru: 

  eks- er forskeyti, sem merkir fyrrverandi (áður, en ekki lengur.) 
  -ist er viðskeyti sem gefur til kynna starfsgrein eða starf. 
  -in er viðskeyti sem gefur til kynna kvenhlutverk eða kvenleika. 
  -o er ending sem gefur til kynna að orðið sé nafnorð.

Hve margir kunna esperanto í heiminum “í dag"?

Í þessu sambandi hafa ótal tölur verið nefndar, flestar á bilinu 100 þúsund til 8 milljónir. Útilokað að gera manntal í því skyni að svara þessari spurningu, en sú rannsókn sem ábyggilegust er talin leiddi í ljós að 2 milljónir væri næst sanni. Þá eru þeir einir taldir sem búa yfir nægilegri færni í málinu til þess að geta haldið uppi einföldum samræðum. 

Hvaða málum líkist esperanto?

Að hljómfalli og grunnorðaforða líkist esperanto rómönskum málum, t.d. ítölsku. Því veldur annars vegar að áherslan er jafnan á næstsíðasta atkvæði eða samstöfu (esperanto, Islando, ekskudristino), og hins vegar að orðaforðinn er að miklu leyti kominn út latínu og rómönskum málum. Einnig er talsvert af germönskum orðum í esperanto, og sum orð eru íslendingum kunnuglegri en flestum öðrum, svosem hejme (heima, ao.), ofte (oft, ao.), muso (mús, no.) 

Nú? Er esperanto þá ekki bara enn eitt indóevrópskt mál? Væri það ekki ósanngjarnt gagnvart öðrum málsvæðum?

Eins og fram hefur komið, þá er orðaforðinn að langmestu leyti indóevrópskur. Það á hins vegar alls ekki við um málfræðina og bygginguna, sem mun fremur einkennir málið en orðstofnarnir. Myndun orða með "sambræðslu" orðhluta (agglutination), sem ræður miklu um eiginleika málsins, er mun fremur að finna t.d. í asískum tungumálum en indóevrópskum.

Esperanto hefur ekki síst átt fylgi að fagna meðal þjóða sem ekki tala indóevrópsk mál, s.s. í Kína, Víetnam og Ungverjalandi. Esperanto er sérlega sveigjanlegt mál, og á mjög auðvelt með að "herma eftir" ólíkum málum. Oft er erfitt að þýða setningar á milli mjög óskyldra mála, einfaldlega vegna þess hve ólík þau eru að byggingu. Það getur t.d. verið að í málinu sem verið er að þýða yfir á sé ekki til atviksorð sem samsvarar atviksorði í frumtextanum. Í esperanto getur hins vegar sérhver orðstofn brugðið sér í búning nánast hvaða orðflokks sem vera skal. 

Dæmi: Eftirfarandi setningar þýða allar ég fór með leigubíl á hótelið

Mi iris per taksio al la hotelo Ég fór með leigubíl á hótelið
Mi taksie irishotelen Ég "með leigubílshætti" (ao.) fór hótel ("hótel" er hér ekki nafnorð, heldur staðaratviksorð, eins og "upp" eða "inn")
Mi taksiis hotelen Ég leigubílaði (so.) hótel ("hótel" er hér ekki nafnorð, heldur staðaratviksorð, eins og "upp" eða "inn")
Mi alhotelis taksie Ég áhótelaði (so.) "með leigubílshætti" (ao.)


Getur tungumál sem ekki hefur neina þjóð á bakvið sig nokkurn tíma orðið lifandi mál?

Það er rétt að engin ein þjóð á esperanto að móðurmáli en að baki þess stendur alþjóðlegt menningarsamfélag, með útgáfu bóka og tímarita á sinni könnu. Auk þess er efnt til fjölþjóðlegra móta þar sem esperanto er samskiptamál. Þannig hefur málið þróast í ræðu og riti. Rétt er þó að taka fram að fagurbókmenntir á esperanto, einkum ljóð og smásögur, er stórum fyrirferðameira en vísindaleg rit. 

Er hægt að hafa eitthvert gagn að því að kunna esperanto? 

Þessari spurningu má hiklaust svara játandi. Það gagn er þó kannski að ýmsu leyti frábrugðið því sem gerist um önnur tungumál. Það fer líka mikið eftir áhugamálum hvers og eins. Sem dæmi má nefna

 • Esperanto er er sérlega hentugt "annað mál". Fjöldi fólks hefur áhuga á að bæta við sig tungumáli, en hafa ekki tíma til þess að læra þjóðtungu.
 • Margar athuganir hafa sýnt að nám í esperanto er mjög æskilegur grundvöllur að málanámi yfirleitt, því esperanto greiðir fyrir skilningi á uppbyggingu tungumála og málfræði.
 • Þú getur haft beint samband við fólk í mörgu löndum á mállegum jafnréttisgrundvelli.
 • Þú getur nýtt þér málið til þess að ferðast, t.d. með því að notfæra þér 
  gistiþjónustu esperantista.
 • Gegnum esperanto geturðu tekið þátt í alþjóðlegum mannamótum, s.s. alþjóðaþingum Heimssambands esperantista.
 • Gegnum esperanto geturðu kynnt þér þýddar bókmenntir af tungum ýmissa þjóða (t.d. úr kínversku og ungversku) og kynnst verkum sem ekki hafa verið þýdd á íslensku, t.d. eftir eftir Garcia Marquez, Saikaku, Gibran, Brecht, Tagore, Kawabata, Dante, and Mickiewicz. 

Væri ekki hætt við að þjóðtungurnar biðu hnekki ef esperanto væri almennt viðurkennt samskiptamál og t.d. kennt í öllum grunnskólum?

Þessari spurningu er hiklaust óhætt að svara neitandi. Esperanto er auðlærðara en önnur tungumál og nám í því tæki því tiltölulega lítinn tíma frá móðurmálskennslu. Þá hefur verið sýnt fram á að nám í esperanto hefur umtalsvert yfirfærslugildi, þ.e. að kunnátta í málinu auðveldar aðgang að öðrum tungumálum og eykur málfræðilegan skilning yfirleitt. Hins vegar má benda á að sterk staða enskrar tungu veldur mörgum áhyggjum enda virðist hún á góðri leið með að útrýma tungum ýmissa minnihlutahópa. Í þessu efni er enskan þó ekkert einsdæmi og mætti t.d. minna á að hin ýmsu tungumál íbúa Frakklands hafa átt í vök að verjast gagnvart frönsku, fjöldi tungumála í Sovétríkjunum máttu hafa sig öll við gagnvart rússnesku og svo mætti lengi telja. Viðgangur þjóðtungna hlýtur að fara mest eftir þeirri tungumálapólitík sem ástunduð er, svo sem hve iðnar þjóðirnar eru að semja og gefa út rit um hin fjölbreytilegustu efni á eigin tungu. 

Yrði framburður á esperanto ekki svo ólíkur í hinum ýmsu löndum að þjóðir sem það lærðu ættu í erfiðleikum með að skilja hver aðra?

Þessu hefur reynslan þegar svarað. Á sumum esperantomótum er saman komið fólk frá 60-70 þjóðlöndum og veitast málleg samskipti mjög auðveld. Að þessu stuðlar einnig ýmis nútíma tækni, útvarp, hljóðbönd, myndbönd og netið svo eitthvað sé nefnt. 

Vafalaust vakna margar fleiri spurningar þó að þessar, sem hér hefur verið leitast við að svara, séu trúlega algengastar. Þér er auðvitað frjálst að beina spurningum til Íslenska esperantosambandsins!