Höfundur málsins Lúðvik Lazarus Zamenhof gaf út fyrstu kennslubókina í júlí 1887. Það var kennslubók handa Rússum og gefin út í Varsjá. Í framhaldi af því kom þessi sama bók út á nokkrum öðrum tungumálum og síðan framhald af henni og orðasöfn. Zamenhof hóf þegar að yrkja á málinu og þýða bókmenntaverk. Með tímanum fetuðu margir í fótspor hans og er nú fjölbreyttur bókakostur til á málinu auk fjölda tímarita.

Fyrsta alvarlega reynslan sem fékkst af esperanto sem talmáli var þegar alþjóðlegt þing esperantista var haldið í Boulogne sur Mer í Frakklandi árið 1905. Alþjóðleg Esperantomót á hverju ári eru eitthvað á þriðja hundrað.

Sjá nánar: " Alþjóðamðál og málleysur" eftir Þórberg Þórðarson og "Esperanto - mál - saga - bókmenntir" eftir Baldur Ragnarsson. Einnig blaðið Esperantotíðindi sem gefið var út á 100 ára afmæli alþjóðamálsins 1987 og fáanlegt er ókeypis á skrifstofu Esperantosambandsins. Af erlendum bókum má benda á L’ ESPÉRANTO eftir Pierre Janton prófessor í ensku og enskum bókmenntum við háskólann í Clermont-Ferrand. Ensk útgáfa heitir: ESPERANTO - Language, Literature, and Community. Þessi bók er einnig til í þýðingum á ítölsku, spænsku, hollensku og þýsku.